Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu
Á undanförnum árum hefur íslenska vísindaumhverfið tekið stórstígum framförum í átt til nýsköpunar með nýjum spennandi sprotafyrirtækjum sem byggja á vísindalegum grunni. Fjöldi einkaleyfaumsókna frá vísindasamfélaginu hefur aukist úr einni á ári í eina á mánuði á árinu 2024. Bak við þessa þróun liggur mikil vinna við að virkja íslenska þekkingu og umbreyta hugviti í verðmæti fyrir samfélagið. Vísindin skapa ný tækifæri, framtíðarverðmæti og jafnvel óvæntar atvinnugreinar en lausnirnar þurfa að rata í réttan farveg og þar gegnir Auðna lykilhlutverki sem brú milli vísinda og atvinnulífs. Auðna þjónustar alla háskóla landsins og helstu rannsóknastofnanir í tækni- og þekkingaryfirfærslu. Með ráðgjöf, þjálfun og tengingu háskólasamfélagsins við atvinnulíf og fjárfesta tryggir Auðna að hugvit og rannsóknaniðurstöður nýtist sem drifkraftur nýsköpunar og efnahagslegra framfara. Auðna er því sannkallaður viskudreifari.
Áhrif aukinnar áherslu á tækniyfirfærslu er tekið að merkja í íslensku samfélagi með framgangi fjölmargra efnilegra verkefna sem byggja á íslensku hugviti og rannsóknum. Með stuðningi Auðnu og íslenska vísindaumhverfisins hafa sprotafyrirtæki og hugverk skilað sér í raunveruleg verðmæti og tækifæri, hér eru nokkur dæmi:
1. Kaldur Therapeutics – nýr vísindasproti í lyfjaþróun með algerlega nýjan valkost við flókin og dýr meðferðarúrræði, sem getur bjargað mannslífum og sparað mikla vinnu og fjármuni.
2. Minamo – nýstárleg örveruhindrandi yfirborðs-meðhöndlun silíkons sem eykur öryggi silíkons innan heilbrigðisgeirans og dregur úr hættu á sýkingum. (www.minamo.is)
3. Careflux - fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni sem nýtir gervigreind til að efla og auðvelda verkferla hjá heilbrigðisstéttum. (https://careflux.ai/)
4. Arterna Biosciences – dæmi um nýja spennandi þróun hérlendis á sviði mRNA lyfjaþróunar (www.arternabio.com)
5. Einkaleyfi Matís – Auðna mun kanna áhuga fyrirtækja á að hagnýta sér einkaleyfi Matís á ensímum sem umbreyta sykrum í afurðir sem geta nýst í lyfja- eða fæðubótariðnaði.
Þessi verkefni eru aðeins dæmi um afurðir rannsókna á sviði líf- og heilbrigðisvísinda, en svipaða sögu má segja af vettvangi fjölmargra annarra rannsóknargreina innan vísinda og lista. Markviss stuðningur við hugverkavernd og nýsköpun skapar ný verðmæti og stuðlar að aukinni samkeppnishæfni Íslands á alþjóða vettvangi.
Auðna Tæknitorg hélt nýlega hátíðaviðburð í Grósku þar sem áhersla var lögð á vísindalega nýsköpun. Fyrirlesarar voru íslensku vísindafrumkvöðlarnir Hans Tómas Björnsson og Egill Skúlason, Tom Flanagan, írskur sérfræðingur í tækniyfirfærslu og Milla Koistinaho, fagfjárfestir í djúptækni frá finnska fjárfestingasjóðnum Innovestor. Í erindi sínu útskýrði Milla nauðsyn og viðskiptalegar ástæður þess að fjárfesta í vísindalegri nýsköpun en sú nýsköpun bjargar mannslífum og umhverfinu.
Auðna tengdi Millu einnig við íslensk vísindafyrirtæki, vísindasprota og innlenda fjárfesta. Slíkar tengingar eru grundvöllur nýrrar fjármögnunar, samfjármögnunar og vaxtar sprotafyrirtækja í vísindalegri nýsköpun.
Auðna leggur mikla áherslu á áframhaldandi eflingu hugverkaverndar og nýsköpunar. Hugvit og uppfinningar eru farnar að seytla eftir farveginum sem stjórnvöld, háskólar og rannsóknastofnanir, með þátttöku Samtaka iðnaðarins, hafa skapað með Auðnu tæknitorgi. Auðna er farvegurinn fyrir fjárfestingu samfélagsins í vísindum út til samfélagsins, en betur má ef duga skal. Farvegurinn er greiður og nú gildir að gefa í. Með nauðsynlegum stuðningi við farvegi vísindalegrar nýsköpunar fjölgum við stoðum undir sjálfbæran vöxt íslenska hagkerfisins og fjölbreytni atvinnulífsins. Með því að nýta hugvitið og virkja vísindalega þekkingu mun Ísland styrkja stöðu sína á alþjóðavísu og skapa verðmæti fyrir komandi kynslóðir í formi öflugs þekkingarsamfélags.
Augljós dæmi um gildi hugverkaréttar og hugvits eru Kerecis, Alvotech, Össur og Marel sem öll kunna leikinn. Við viljum fleiri slíkar stoðir.
Færa má rök fyrir því að Auðna tæknitorg, sem óhagnaðardrifinn farvegur fyrir nýsköpun úr vísindasamfélaginu hafi með fjölbreyttu starfi sínu skilað 60 krónum fyrir hverja eina krónu sem henni er úthlutað. Það er hverrar krónu virði!
Auðna Tæknitorg | TTO Iceland
Bjargargata 1, 102 Reykjavik, Iceland
Kt. 620119 0160