Sergie Belongie flutti lykilræðuna á ráðstefnunni
Þann 17. janúar stóð Opni Háskólinn við Háskólann í Reykjavík fyrir ráðstefnunni AI & Society: Bridging Innovation and Responsibility í samstarfi við EDIH – Miðstöð Stafrænnar Nýsköpunar, CADIA – Gervigreindarsetur HR og IIIM – Vitvélastofnun Íslands. Á ráðstefnunni voru samankomnir leiðandi sérfræðingar og fagfólk til að ræða áhrif gervigreindar á samfélagið.
Í upphafi dags bauð Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, gesti velkomna og fylgdi Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, því eftir með ávarpi þar sem hann lagði áherslu á einstök tækifæri og áskoranir Íslands í heimi hraðrar þróunar gervigreindar. Lykilræðuna flutti Serge Belongie, forstöðumaður Pioneer Center for Artificial Intelligence í Kaupmannahöfn og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann fjallaði um möguleika og takmarkanir á sviði gervigreindar.
Fyrirlestrar og pallborðsumræður snertu meðal annars á ábyrgri þróun gervigreindar, áskorunum í reglugerðarmálum og hagnýtum lausnum á ýmsum sviðum. Pallborðsumræður fjölluðu um málefni eins og tækifæri og áhættu sem fylgja notkun gervigreindar í heilbrigðiskerfinu, jafnvægi milli skilvirkni og friðhelgi einkalífs á opinberum vettvangi og auknar áhyggjur af öryggismálum tengdum gervigreind. Fjórar megináherslur ráðstefnunnar – gervigreind í sprotafyrirtækjum, heilbrigðiskerfi, opinberri stjórnsýslu og netöryggi – sköpuðu vettvang fyrir mikilvægar umræður um verndun einkalífs, gagnsæi og samfélagslegan ávinning af notkun gervigreindar.
Bridget Burger, verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík og fulltrúi EDIH-IS, stýrði pallborðsumræðum um gervigreind og netöryggi undir yfirskriftinni “Is the genie out of the bottle?” Umræðurnar lögðu áherslu á mikilvægi þess að sameina nýsköpun og ábyrgð í þessari hröðu þróun.
Deginum lauk með Gervigreindarhátíð CADIA, opnum viðburði fyrir alla áhugasama um gervigreind. Serge Belongie opnaði hátíðina með fyrirlestri um það hvort gervigreindin sé í raun greind, Saga Ulfarsdóttir, AI ráðgjafi, flutti áhugaverðan fyrirlestur um það hvernig gervigreind getur á sama tíma verið bæði minna og meira áhrifamikil en við höfðum nokkru sinni ímyndað okkur og Henning Ulfarsson, deildarforseti Tölvunarfræðideildar HR, ræddi þær áskoranir sem fylgja kennslu á tímum gervigreindar.
Auðna er hluti af Miðstöð Stafrænnar Nýsköpunar á Íslandi (EDIH-IS) og er stolt af því að hafa tekið þátt í þessari vel heppnuðu ráðstefnu og stuðlað að áframhaldandi umræðu um nýsköpun og ábyrgð í gervigreind.
Myndir: Háskólinn í Reykjavík
Auðna Tæknitorg | TTO Iceland
Bjargargata 1, 102 Reykjavik, Iceland
Kt. 620119 0160