MasterClass í vísindalegri nýsköpun með Landspítalanum

Þriggja daga MasterClass námskeið fyrir starfsfólk Landspítalans og doktorsnema í heilbrigðistækni


Í síðustu viku stóð Auðna Tæknitorg fyrir þriggja daga MasterClass námskeiði í vísindalegri nýsköpun fyrir starfsfólk Landspítalans og doktorsnema í heilbrigðistækni. Áhersla var lögð á nýsköpunarferlið og hvernig rannsóknarniðurstöður geta þróast í átt að hagnýtingu.


Innsýn í nýsköpunarferlið


Þátttakendur fengu innsýn í fjölbreyttar hliðar vísindalegrar nýsköpunar, en meðal annars var fjallað um hvað felst í tækniyfirfærslu, hugverkarétt í heilbrigðistækni og hugbúnaði, fjármögnunartækifæri fyrir rannsóknaverkefni, samskipti við fjárfesta og hvernig koma megi hugmyndum á framfæri með áhrifaríkum hætti.


Fyrirlesarar komu úr hinum ýmsu áttum en sameinuðust í því að miðla dýrmætum ráðum og reynslu. Meðal þeirra sem komu fram voru Einar Stefánsson, augnlæknir og stofnandi Oculis, Helga Valfells, einn af stofnendum Crowberry Capital, og Guðmundur Reynaldsson, sérfræðingur í hugverkarétti.


Business Model Canvas, teymisvinna og „pitch“


Á námskeiðinu fengu þátttakendur þjálfun í notkun Business Model Canvas. Þau unnu að eigin verkefnum í teymum og með leiðsögn reyndra mentora, þróuðu hugmyndir sínar áfram og undirbjuggu kynningar sem þau fluttu á lokadegi námskeiðsins. Til að aðstoða við kynningarnar fengu þátttakendur fyrirlestur um hvað felst í áhrifaríku „pitch-i“ frá Kjartani Þórssyni, lækni og stofnanda Prescriby, og þjálfun í framkomu frá Maríu Ellingsen, leikkonu.


Í lok námskeiðsins voru fjögur metnaðarfull verkefni kynnt fyrir áheyrendum, þar sem mátti greina frumleika, faglega framsetningu og styrkan grundvöll til frekari þróunar.


Við hjá Auðnu þökkum fyrir frábært námskeið og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi þróun nýsköpunar innan heilbrigðiskerfisins!

DEILA

FLEIRI GREINAR

13. maí 2025
Hvernig eflum við næstu kynslóð vísindadrifinna frumkvöðla?
8. maí 2025
Ingunn Sigurpálsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs
24. mars 2025
Þriggja daga námskeið þar sem lögð var áhersla á vísindalega nýsköpun, fjármögnun og hugverkarétt.
Fleiri greinar