Á viðburðinum Leiðin til vísindalegrar nýsköpunar komu saman einstaklingar með þekkingu á tækniyfirfærslu og vísindalegri nýsköpun til að deila innsýn sinni og reynslu af því hvernig hægt er að efla rannsóknir og nýsköpun á Íslandi.
Dagskráin hófst á ávarpi Ásdísar Höllu Bragadóttur, ráðuneytisstjóra Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Hún ræddi sögu hugtaksins „vísindaleg nýsköpun“ á Íslandi og fjallaði um það sem ráðuneytið hefur unnið að undanfarin ár til að styðja rannsóknir og nýsköpun. Hún lagði einnig áherslu á mikilvægt hlutverk hins opinbera í að stuðla að vísindalegum framförum.
Að ávarpinu loknu voru fjórir fyrirlestrar þar sem ræðumenn miðluðu sinni sýn á hvernig vísindaleg nýsköpun getur verið knúin áfram með rannsóknum, tækniyfirfærslu og fjárfestingum. Hans Tómas Björnsson, barnalæknir og prófessor í Háskóla Íslands, fjallaði um brautryðjandi starf sitt með Kaldur Therapeutics og reynslu sína af tækniyfirfærslu erlendis. Egill Skúlason, prófessor í Háskóla Íslands, sagði frá því hvernig hann notar ofurtölvur í flókna útreikninga í efnaverkfræði og hvernig Auðna hefur aðstoðað hann við að finna leiðir til að markaðsvæða rannsóknir sínar. Tom Flanagan, fyrrverandi yfirmaður tækniyfirfærslu hjá University College Dublin á Írlandi, deildi fyrirmyndaraðferðum í þekkingaryfirfærslu og lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að ná til ungra nemenda og hvetja þá til að taka þátt í nýsköpun. Að lokum deildi Milla Koistinaho, frá Innovestor fjárfestingarsjóðnum í Finnlandi, reynslu sinni af því að fjárfesta í djúptækni og ítrekaði mikilvægi slíkra fjárfestinga fyrir framtíðarþróun.
Viðburðinum lauk með áhugaverðri pallborðsumræðu undir stjórn Bergs Ebba Benediktssonar. Í pallborðinu tóku þátt Egill Skúlason, Tom Flanagan og Milla Koistinaho, auk Einars Mäntylä, framkvæmdastjóra Auðnu, og Jóns Inga Bergsteinssonar frá hinni nýstofnuðu Icelandic Business Angel Network (IceBAN). Umræðurnar snerust meðal annars um hvernig hægt sé að styðja betur við íslenska vísindamenn, mikilvægi þess að stunda nám erlendis og hvernig alþjóðleg reynsla og tengslanet geta styrkt nýsköpun á Íslandi.
Daginn eftir skipulagði Auðna fundaröð með íslenskum vísindafyrirtækjum, vísindasprotum og íslenskum fjárfestum með Millu Koistinaho, djúptæknifjárfestinum frá Innovestor í Finnlandi með það að markmiði að kynna íslenska nýsköpun byggða á vísindum og til að efla fjárfestatengsl á Norðurlöndum.
Frábær endir á frábæru ári!
Auðna Tæknitorg | TTO Iceland
Bjargargata 1, 102 Reykjavik, Iceland
Kt. 620119 0160