MasterClass - frá rannsóknum til áhrifa

Tveggja daga MasterClass námskeið gaf innsýn í hvernig rannsóknir og hugmyndir geta þróast í átt að hagnýtingu og samfélagslegum áhrifum.

Í síðustu viku hélt Auðna Tæknitorg tveggja daga MasterClass námskeið þar sem lögð var áhersla á hvernig rannsóknir geta þróast í átt að hagnýtingu og samfélagslegum ávinningi.
Alls tóku fimmtán þátttakendur frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst þátt í námskeiðinu sem fór fram í Grósku.


Frá hugmynd til hagnýtingar


Fyrri daginn fengu þátttakendur fræðslu um hvernig þekkingar- og tækniyfirfærsla getur stuðlað að hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna, en auk þess var fjallað um hugverkarétt og mikilvægi þess að vernda nýjar hugmyndir á réttan hátt. Einnig var fjallað um verðmætasköpun og hvernig hægt er að þróa hugmyndir áfram með aðstoð Business Model Canvas, sem þátttakendur nýttu síðan í teymisvinnu undir leiðsögn mentora. Þátttakendur fengu jafnframt hagnýta þjálfun í framkomu og áhrifaríkri kynningu, sem kom sér vel þegar kom að undirbúningi og framsetningu lokakynninga.


Síðari daginn hlustuðu þátttakendur á reynslusögu um mikilvægi þess að vernda hugverk og fengu svo fræðslu um helstu atriði sem hafa ber í huga þegar kemur að því að ræða við fjárfesta. Þá var farið yfir ýmis styrk- og fjármögnunartækifæri sem standa rannsakendum til boða.


Í lok námskeiðsins kynntu fjögur teymi hugmyndir sínar fyrir hópnum og fengu uppbyggilega endurgjöf sem nýtist þeim vonandi vel í áframhaldandi þróunarvinnu.


Kærar þakkir til þátttakenda og fyrirlesara


Við hjá Auðnu þökkum metnaðarfullum og áhugasömum hópi fyrir virka þátttöku og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi þróun nýsköpunar innan fræðasamfélagsins.


Einnig viljum við þakka öllum þeim sem komu fram á námskeiðinu kærlega fyrir sitt framlag en fyrirlesarar voru:


Vilhjálmur Ásgeirsson – Árnason Faktor
Anna Steinssen - KVAN
Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch PhD – Fönn Consulting
Jón Ingi Bergsteinsson – IceBAN & LIFA Ventures
Og allt Auðnu-teymið: Anders Holm, Lýður Skúli Erlendsson, Elísa Sóley Magnúsdóttir, Einar Mäntyla, Sverrir Geirdal og Ingunn Sigurpálsdóttir

DEILA

FLEIRI GREINAR

20. október 2025
Auðvarpið snýr aftur: Af hverju Auðna og af hverju er framtíðin björt?
12. október 2025
Nordic HPC Summit - 22. október 2025 í Stokkhólmi
26. september 2025
Frá rannsóknum til hagnýtingar og verðmætasköpunar
Fleiri greinar